Chelsea varð í kvöld fyrsta enska liðið til að komast áfram í fjórðungsúrslit Meistaradeildar Evrópu.
Liðið vann nokkuð þægilegan 2-0 sigur á Galatasaray í kvöld og samanlagt, 3-1. Bæði mörk þeirra ensku komu í fyrri hálfleik.
Samuel Eto'o gaf tóninn strax í upphafi leiks er hann batt enda á góða sókn heimamanna með því að skora fram hjá Fernando Muslera í marki Tyrkjanna.
Gary Cahill bætti við öðru marki undir lok hálfleiksins með skoti af stuttu færi eftir að hafa fylgt eftir skalla John Terry sem var varinn.
Galatasaray náði sér aldrei á strik í kvöld en Didier Drogba, sem lék í átta ár hjá Chelsea, komst reyndar nálægt því að skora undir lok leiksins. Chelsea fékk þó mun fleiri færi í seinni hálfleik en náði ekki að skora.
Roberto Mancini, stjóra Galatasaray, hefur nú mistekist að vinna lið Jose Mourinho í sex viðureignum þeirra í Evrópukeppnum.
Fótbolti