Sport

Mætir með tvöfaldan íslandsmeistara

Telma Tómasson skrifar
Búast má við flugeldasýningu og hörkukeppni í tölti í Meistaradeildinni í hestaíþróttum sem send verður út í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport á fimmtudagskvöld. Gríðarlegur áhugi er á Meistaradeildinni, á þriðja þúsund manns hafa mætt á áhorfendapallana og beinar útsendingar á Stöð 2 Sport njóta mikilla vinsælda.

Tvöfaldir íslandsmeistarar í tölti, Árni Björn Pálsson og Stormur frá Herríðarhóli, eru meðal þeirra sem mæta í braut á fimmtudag. „Einstaklingskeppnin vegur salt,“ segir Árni Björn. „Ef maður ætlar að vera með þá verður að tefla fram því besta sem er í húsinu. Við Stormur mætum og reynum að standa okkur.“

Ljóst er fyrirfram að samkeppnin verði hörð. Hugsanlega reynir Viðar Ingólfsson að verja titilinn frá því í fyrra á Vornótt frá Hólabrekku, sigurvegarar gæðingafiminnar, Olil Amble og glæsihryssan Álfhildur frá Syðri – Gegnishólum eru líklegar til að gera góða hluti og heyrst hefur að Leó Geir mæti með Krít frá Miðhjáleigu og Sigurður V. Matthíasson með stóðhestinn Andra frá Vatnsleysu.

Þegar hefur farið fram keppni í fjórgangi, gæðingafimi og fimmgangi.

Keppnin hefur verið í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og einnig sýnt frá því helsta, tekin viðtöl og farið í heimsóknir í vikulegum samantektarþáttum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×