Fótbolti

Býður treyju í stað bjórþambs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðlaugur Victor Pálsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, hefur sett landsliðstreyju sína úr mikilvægum leik gegn Noregi á uppboð.

Þetta tilkynnti hann á Facebook-síðu sinni í dag en hann ákvað að bjóða upp treyjuna í stað þess að taka áskorun um bjórdrykkju eins og hefur tíðkast víða á samfélagsmiðlinum síðustu vikurnar.

Ágóðinn af uppboðinu rennur óskertur til Barnaspítala Hringsins en þeir sem hafa áhuga á treyjunni geta haft beint samband við Guðlaug Victor á Facebook-síðu hans.

Hér má sjá skilaboð Guðlaugs Victors:

„Í stað þess að þamba bjór, hef ég ákveðið að setja þessa dýrmætu treyju á uppboð og rennur allur ágóði til Barnaspítalans. Þessi treyja var partur af stærsta viðburði í knattspyrnu sögu Íslands og er hún mér mjög kær. Þar sem ég kom ekki við sögu í leiknum, ætla ég mér ekki að halda henni og hef ég ákveðið að nota tækifærið og styrkja gott málefni. Treyjan er árituð frá öllum leikmönnum sem voru í hópnum gegn Noregi (leiknum sem kom okkur í umspil fyrir HM) og meðal annars þjálfurum.

Ef þú hefur áhuga á að bjóða í treyjuna, endilega sendu mér skilaboð í innhólf.

Takk fyrir stuðninginn.

Guðlaugur Victor“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×