Íslenski boltinn

Hefillinn gerði gagn á Laugardalsvelli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/KSÍ
Stærðarinnar veghefill var notaður í baráttunni við svellið sem þekur þjóðarleikvanginn í Laugardalnum.

Eins og fjallað hefur verið um síðustu daga og vikur er mikil hætta á kalskemmdum á grasvöllum víða á suðvesturhorninu vegna tíðarfarsins í vetur.

Vallarstarfsmenn á Laugardalsvelli notuðu veghefil til að ryðja snjó af vellinum til að koma í veg fyrir að enn þykkara svell.

„Þetta gekk vel. Aðalatriðið var að ná snjónum af svo það myndi ekki bætast við frostlagið. Við náðum snjónum af og hefillinn krafsaði um leið í svellið,“ sagði Kristinn V. Jóhannsson, vallarstarfsmaður á Laugardalsvelli.

Kristinn er hér fyrir miðri mynd.Mynd/KSÍ


„Hann náði að þynna svellið um tvo sentímetra og það ætti vonandi að verða til þess að það verði auðveldara viðureignar í hlákunni sem kemur vonandi í kvöld.“

„Við vorum líka að vonast til að þyngslin í vélinni og keðjunni myndi mynda sprungur í svellinu og það myndi aðeins ná að lofta um grasið. En það mun ekki koma almennilega í ljós hvernig til hefur tekist fyrr en í vor þegar það fer að hlýna.“

Grasið er enn grænt undir snjónum og svellinu.Mynd/KSÍ


Kristinn segir að vallarstjórar á höfuðborgarsvæðinu hafi leitað til kollega sinna á norðurlandi en þeir hafa glímt við svellkal undanfarin ár.

„Það voru þeir sem bentu okkur á þessa aðferð og hún virkaði ágætlega, enda hafa þeir náð góðum árangri í þessari baráttu á sínum völlum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×