Viðskipti erlent

CVS drepur í: „Sígarettur eiga ekki samleið með heilbrigðisþjónustu“

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Tóbakssölu verður hætt í öllum verslunum CVS fyrir 1. október á þessu ári.
Tóbakssölu verður hætt í öllum verslunum CVS fyrir 1. október á þessu ári. vísir/getty
CVS, stærsta lyfsölukeðja Bandaríkjanna, hefur ákveðið að hætta að selja sígarettur og annan tóbaksvarning á þessu ári. Þetta kom fram í tilkynningu frá fyrirtækinu í morgun.

Tóbakssölu verður hætt í öllum verslunum keðjunnar fyrir 1. október en samtals eru verslanirnar um 7.600 talsins. Er þetta í fyrsta sinn sem svo stór söluaðili hefur ákveðið að hætta að selja tóbak í Bandaríkjunum, enda er salan afar ábatasöm.

„26 þúsund lyfjafræðingar og hjúkrunarfræðingar á okkar vegum hjálpa milljónum sjúklinga á degi hverjum,“ segir Larry Merlo, framkvæmdastjóri keðjunnar. „Þeir hjálpa sjúklingum að kljást við veikindi á borð við háan blóðþrýsting, hátt kólesteról og sykursýki. Allt eru þetta veikindi sem reykingar gera enn verri. Við höfum því komist að þeirri niðurstöðu að sígarettusala eigi alls ekki samleið með heilbrigðisþjónustu.“

Ákvörðunar CVS er fagnað af heilbrigðissamtökum víða um Bandaríkin en ljóst er að fyrirtækið mun verða af umtalsverðum tekjum vegna þessa, sem sagðar eru nema um tveimur milljörðum árlega.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×