Íslenski boltinn

Erfiðara að fá Bandaríkjamenn til landsins

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Chuck Chijindu í leik með Þór í 1. deildinni sumarið 2012.
Chuck Chijindu í leik með Þór í 1. deildinni sumarið 2012. Mynd/Heimasíða Þórs
Knattspyrnusamband Íslands hefur sett þrengri skilyrði á félagaskipti leikmanna frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins, Grænlands og Færeyja.

Breyting á reglugerð KSÍ varðandi félagaskipti tók gildi á dögunum. Nú þurfa félög sem ætla að fá leikmenn frá öðrum svæðum s.s. fjölmörgum Austur-Evrópuþjóðum, Bandaríkjunum, Suður-Ameríku, Asíu, Afríku og Eyjaálfu að ganga frá dvalar- og atvinnuleyfi fyrir leikmenn sína áður en félagaskipti ganga í gegn.

Segir í skýrslu KSÍ að Útlendingastofnun hafi gert ítrekaðar athugasemdir við að hingað komi til landsins leikmenn án dvalarleyfis og geri jafnvel leikmannasamninga.

Síðastliðið sumar sagðist Chuck Chijindu, bandarískur framherji Þórs í Pepsi-deild karla, ekki hafa fengið nein laun greidd fyrri hluta tímabils. Kom það til af því að hann hafði ekki verið með atvinnuleyfi.

„Það má eiginlega segja að ég hafi fengið launin greidd eftir á,“ sagði Chuck í samtali við Fréttablaðið.

Þá hefur einnig verið gerð sú breyting á fyrirkomulagi um lánssamninga að aðeins félög í Pepsi-deild karla og kvenna auk 1. deildar karla geti lánað leikmenn. Öll félög geta fengið leikmenn að láni en aðeins frá félögum í fyrrnefndum deildum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×