Sport

Sterkasta júdómóti Íslandssögunnar lokið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Þormóður Jónsson var í eldlínunni í Laugardalshöll í dag.
Þormóður Jónsson var í eldlínunni í Laugardalshöll í dag. Vísir/Valli
Nokkrir af bestu júdóköppum heims voru á meðal þátttakenda í júdókeppni Reykjavíkurleikanna sem fram fóru í Laugardalshöll í dag.

Sterkustu júdómennirnir á heimsmælikvarða tóku þátt í +100 kg, -100 kg og -81 kg flokki karla en einnig var keppt í fjórum öðrum þyngdarflokkum karla og tveimur kvenna.

Í +100 kg flokki mættust í úrslitum Ólympíufarinn Þormóður Jónsson úr Júdófélagi Reykjavíkur og Michal Horak frá Tékklandi en hann vann tvö grand prix mót á síðasta ári og er gríðarlega sterkur júdómaður. Glíma Þormóðs og Horak var löng og ströng.  Þormóður hafði yfirhöndina og var yfir þangað til 1 sekúnda var eftir. Þá féllu þeir báðir í gólfið og Horak lenti ofaná, komst í fastatak og vann.

Ólympíumeistarinn Tagir Khaibulaev frá Rússlandi mætti Þór Davíðssyni frá Selfossi í úrslitum í -100 kg flokknum. Ólympíumeistarinn sigraði Þór örugglega á ipponi með axlarkasti eins og sjá má í myndbandi hér að neðan.

Tvöfaldur Ólympíufari og einn af 20 bestu júdómönnum Evrópu, Jaromir Jazec frá Tékklandi, sigraði í -81 kg flokki. Í úrslitum mætti hann Kristjáni Jónssyni úr Júdófélagi Reykjavíkur.

Um 70 keppendur tóku þátt, þar af um 20 erlendir frá sjö mismundandi löndum. Aldrei áður hefur jafn sterkt júdómót verið haldið hér á landi að því er segir í tilkynningu frá Júdósambandi Íslands.

Úrslit í öllum þyngdarflokkum karla og kvenna má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×