Sport

Heimsmeistari í kraftlyftingum mætir í Laugardalinn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kjell Egil Bakkelund.
Kjell Egil Bakkelund. Mynd/Heimasíða Bakkelund
Á meðal keppenda í kraftlyftingakeppni Reykjavíkurleikanna verður heimsmeistarinn í -83 kg flokki, Kjell Egil Bakkelund frá Noregi.

Bakkelund var fyrir skemmstu kosinn kraftlyftingamaður Evrópu en landi hans, Inger Blikra, kemur einnig til landsins. Hún er sá íþróttamaður Noregs sem hefur unnið til flestra verðlauna á alþjóðamótum, óháð íþróttagrein.

 Keppnin í kraftlyftingum fer fram í Laugardalshöll á morgun laugardaginn 18.janúar og hefst klukkan 11. Áætluð mótslok eru um kl.15. Mótið er um leið Íslandsmeistaramót í bekkpressu 2014 og verða Íslandsmeistarar verðlaunaðir í öllum þyngdarflokkum karla og kvenna. Einnig verður keppt í stigakeppni óháð þyngdarflokkum. Erlendu keppendurnir geta keppt um stigaverðlaun, en auðvitað ekki um Íslandsmeistaratitlana.

Fanney Hauksdóttir, kraftlyftingakona ársins 2013, og Sigfús Fossdal sem setti Íslandsmet í +120 kg á síðustu Reykjavíkurleikum eru skráð til þátttöku í kraftlyftingamótinu ásamt flestum af sterkasta kraftlyftingafólki landsins.

Hér má finna lista yfir skráða keppendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×