Sport

Hrafnhildur Skúladóttir ekki sú eina sem fékk ekki að kveðja

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Edda Garðarsdóttir
Edda Garðarsdóttir
Knattspyrnukonan Edda Garðarsdóttir og körfuboltakonan Birna Valgarðsdóttir lentu í svipuðum aðstæðum og Hrafnhildur Skúladóttir þegar kom að endalokunum með íslenska landsliðinu.

Líkt og Hrafnhildur eru Edda og Birna tvær af farsælustu landsliðskonum Íslands í boltagreinum frá upphafi.

Edda varð í ár aðeins önnur íslenska knattspyrnukonan sem nær að spila hundrað A-landsleiki en því náði hún í Algvarve-bikarnum í mars.

Flestir reiknuðu með að Edda væri á leiðinni á EM í Svíþjóð síðasta sumar og enginn bjóst við að hennar síðasti landsleikur yrði skelfilegur fyrri hálfleikur í 2-3 tapi á móti Skotlandi á Laugardalsvellinum 1. júní. Sigurður Ragnar Eyjólfsson valdi hana hins vegar ekki í hópinn fyrir næsta landsleik og skildi hana síðan eftir þegar hann valdi EM-hópinn sinn.

Birna Valgarðsdóttir er leikjahæsta landsliðskona Íslands í körfubolta frá upphafi en hún spilaði 76 landsleiki frá 1995 til 2009. Hún eða aðrir bjuggust ekki við aðhennar síðasti landsleikur yrði á móti Svartfjallalandi í Smáranum 29. ágúst.

Kvennalandsliðið var hins vegar ekki starfrækt næstu tvö árin (enginn leikur 2010 og 2011) og Sverrir Þór Sverrisson, nýráðinn landsliðsþjálfari, valdi ekki Birnu þegar hann skar niður æfingahóp sinn fyrir Norðurlandamótið 2012. Birna fékk tilkynningu um það í tölvupósti að hún væri ekki í lokahópnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×