Fótbolti

Margrét og Sif meiddar en ekki úr leik

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir bað sjálf um skiptingu í fyrri hálfleik.
Margrét Lára Viðarsdóttir bað sjálf um skiptingu í fyrri hálfleik. Mynd/Daníel
„Ég er þokkalega bjartsýn á að geta verið með gegn Serbíu,“ segir landsliðskonan Margrét Lára Viðarsdóttir. Margréti Láru var skipt af velli í fyrri hálfleik í 3-1 tapi Kristianstad gegn Umeå í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar á sunnudaginn. Sif Atladóttur, liðsfélaga hennar, var sömuleiðis skipt af velli og ekki ólíklegt að farið hafi um landsliðsþjálfarann Frey Alexandersson. Stelpurnar mæta Serbíu í undankeppni HM í lok mánaðar.

Margrét Lára segist hafa orðið fyrir meiðslunum, sem eru í festingu á mörkum nára og aftan í læri, í leiknum á undan. „Ég æfði því lítið í síðustu viku en við ætluðum að láta á þetta reyna í leiknum,“ segir Margrét Lára sem bað sjálf um skiptingu eftir hálftíma leik.

„Ég fann að þetta var að taka vel í svo ég vildi ekki taka neina áhættu.“

Sænskir fjölmiðlamenn töldu Sif mögulega hafa slitið krossband en það virðist hafa verið misskilningur. Sif hafði meiðst á hné í vikunni á undan og lenti illa á hnénu. Reiknað er með því að hún geti verið með í leiknum gegn Serbíu. Hópurinn fyrir leikinn verður tilkynntur í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×