Lífið

"Það geta allir sem vilja búið til músík í dag"

Ólöf Skaftadóttir skrifar
„Við erum að frumsýna þættina okkar, Á bak við borðin, á föstudaginn. Í þáttunum heimsækjum við misþekkta tónlistarmenn í stúdíóin þeirra og grennslumst fyrir um vinnuferli þeirra og hvernig þeir búa til músík. Það geta allir sem vilja búið til músík í dag,“ segir Ársæll Þór Ingvason, betur þekktur sem tónlistarmaðurinn Intro Beats.

Á bak við borðin verða til sýningar hér á Vísi.

„Hugmyndin er að skýra fyrir áhugafólki um tónlist að það skipti engu máli hvort þú ert með fartölvu og forrit sótt með vafasömum hætti eða langdýrustu græjurnar,“ bætir hann við.

„Við stefnum á átta til tíu þætti og heimsækjum tónlistamenn á borð við Natalie Gunnarsdóttur, betur þekkta sem DJ Yamaho, Friðfinn Sigurðsson, eða Oculus, og fleiri,“ segir Ársæll.

„Svo ætlum við Guðni að vera duglegir með kennslumyndbönd og alls konar þætti. Við ætlum að hvetja alla til að búa til tónlist,“ heldur Ársæll áfram.

Þættirnir eru gerðir í samstarfi við Hljóðheima, sem er hugarfóstur Guðna Impulze Einarssonar.

„Þetta er stúdíó sem er líka skóli. Það er boðið upp á DJ-námskeið og alls konar námskeið, til að mynda á forritið Ableton Live, sem margir frægir tónlistarmenn vinna á,“ segir Ársæll að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×