Íslenski boltinn

Vill fleiri Stjörnustelpur í landsliðið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Stjörnustelpurnar létu hvassviðri og skítakulda ekki hafa áhrif á fagnaðarlæti sín í Garðabænum í gær. Eftir hefðbundnar myndatökur tóku Garðbæingar eina góða hrúgu á þjálfarann sinn.
Stjörnustelpurnar létu hvassviðri og skítakulda ekki hafa áhrif á fagnaðarlæti sín í Garðabænum í gær. Eftir hefðbundnar myndatökur tóku Garðbæingar eina góða hrúgu á þjálfarann sinn. Fréttablaðið/Daníel
Kvennalið Stjörnunnar fékk Íslandsmeistarabikarinn afhentan eftir 6-0 slátrun á grönnum sínum í Breiðabliki í gær. Stjarnan vann alla átján leiki sína og fékk aðeins á sig sex mörk. Hvort tveggja er einsdæmi.

„Auðvitað var aðalmarkmið sumarsins að verða Íslandsmeistari. Við vorum ekkert að spá í svona metum,“ segir Þorlákur Árnason, þjálfari Garðabæjarliðsins. Harpa Þorsteinsdóttir og Danka Podovac skoruðu tvö mörk hvor í 6-0 sigri á Breiðabliki í lokaumferðinni í gær.

„Þetta er náttúrulega óaðfinnanlegt hjá okkur og ótrúlegur árangur. Við erum svo ánægðar með okkur,“ sagði Harpa sem fór á kostum í sumar. Harpa skoraði 28 mörk í átján leikjum, varð langmarkahæsti leikmaður deildarinnar og ljóst er að hún verður kosin besti leikmaður deildarinnar í ár.

„Það er öllum ljóst. Hún hefur ekki bara skorað þessi mörk heldur á hún einnig fjórtán stoðsendingar í deildinni,“ segir Þorlákur.

Þjálfarinn segir ljóst að fimm lið hafi ætlað sér sigur áður en keppni hófst í mótinu í maí.

„Þór/KA og Valur stimpluðu sig út snemma og eftir fyrri umferðina voru það eiginlega bara Blikar sem áttu möguleika í okkur,“ segir Þorlákur.

Stjarnan missti Íslandsmeistaratitilinn í hendur Þórs/KA síðastliðið sumar. Hann viðurkennir að Garðbæingar hafi verið fúlir í lok leiktíðar en endurmetið stöðuna með tímanum. Liðið varð bikarmeistari og hafnaði í 2.-3. sæti deildarinnar.

„Við vorum með meiri breidd og sterkari hóp í fyrra en lentum í miklum meiðslum á svipuðum tíma,“ segir Þorlákur. Liðið hafi hins vegar mætt afar hungrað til leiks í sumar og uppskorið eftir því.

Þorlákur þjálfari ásamt Hörpu.Mynd/Daníel
Vill sjá fleiri í landsliðinu

Þorlákur hefur ekki tekið ákvörðun um hvort hann verði áfram með liðið. Hann muni hugsa málið og ræða við Stjörnuna í kjölfarið. Hann telur að félagið muni halda öllum þeim leikmönnum sem það vill.

„Stemmningin í liðinu er einfaldlega það góð.“

Stjarnan fagnaði titlinum vel í gærkvöldi en þó eru leikmenn ekki komnir í frí. Æfingum verður haldið áfram fram í október þótt álagið verði minnkað. Landsleikir eru fram undan gegn Sviss 26. september og í Serbíu 31. október. Leikirnir verða þeir fyrstu undir stjórn nýs landsliðsþjálfara, Freys Alexanderssonar.

Stjarnan átti fimm fulltrúa í landsliðshópnum á EM í Svíþjóð í sumar. Glódís Perla Viggósdóttir og Harpa Þorsteinsdóttir komu við sögu auk þess sem Anna Björk Kristjánsdóttir, Soffía Arnþrúður Gunnarsdóttir og Sandra Sigurðardóttir voru á bekknum. Láki vill sjá Írunni Þorbjörgu Aradóttur og Önnu Maríu Baldursdóttur í landsliðshópnum.

„Ég yrði mjög hissa ef Írunn og Anna María fá ekki kallið,“ segir Þorlákur. Hann segir líka landsmenn eiga eftir að sjá það besta frá Hörpu í landsliðinu. Hún eigi að spila frammi en ekki í öðrum stöðum framarlega á vellinum.

Hann bendir einnig á hve vel íslenska landsliðið standi með miðverði sína Glódísi Perlu og Önnu Björk.

„Sif Atladóttir er besti miðvörður sem við eigum. En ef hún er meidd verðum við í engum vandræðum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×