Verðfall hlutabréfa Apple er talið endurspegla vonbrigði með nýjar útgáfur iPhone-snjallsímans, sem kynntar voru með viðhöfn síðdegis á þriðjudag.
Í gær var síminn svo kynntur í Kína, þar sem Apple gerir sér vonir um aukna markaðshlutdeild, með því að upptaka var spiluð frá kynningunni deginum áður í Bandaríkjunum og gestum gefinn kostur á að skoða nýju tækin.
Sala á nýju símunum hefst 20. þessa mánaðar í Asíulöndum en verð þeirra þykir nokkuð hátt.
iPhone 5s er flaggskipið og búinn allra nýjustu tækni og fæst í gylltum lit og silfruðum. 5c síminn er svo ódýrari í litaðri plastumgjörð. Ódýrari síminn er umtalsvert dýrari en margir greinendur á farsímamarkaði höfðu spáð.
Búist var við að Apple myndi kynna til sögunnar snjallsíma sem keppt gæti við aðra slíka í flokki miðlungsdýrra síma og með því unnið til baka markaðshlutdeild og aukið hlut sinn á markaði farsíma í Kína.
Um leið og Apple kynnti til sögunnar ný símtæki var hulunni svipt af nýju stýrikerfi fyrir snjallsíma fyrirtækisins, iOS 7. Stýrikerfið þykir litríkara og þægilegra í allri umgengni, auk þess sem bætt hefur verið við margvíslegri virkni í símana, svo sem fingrafaralæsingu.
Nýju símarnir eru báðir með iOS 7-stýrikerfi en hægt verður að uppfæra með því eldri síma.
Í umfjöllun Valuewalk.com í gær er fjallað um sviptingar á farsímamarkaði, en stutt er síðan Nokia seldi fartækjahluta fyrirtækisins til Microsoft.
„iPhone 5c hefur að bjóða litagleði og sprækleika Nokia Lumia-vörulínunnar. iPhone 5s er með uppfærslur á myndavél og stýrikerfi sem þegar eru komnar fram á Android-símum,“ segir þar.
Með nýju stýrikerfi og símum er Apple sagt búið að ná öðrum farsímaframleiðendum hvað tækni varðar en skortur á einhverju meiru er talinn hafa valdið fjárfestum vonbrigðum. Útspilið sé ekki til þess fallið að auka hlut fyrirtækisins, hvorki á nýmörkuðum né öðrum.
Grín gert að Apple eftir símakynningu

Fréttin var sett á vefinn í kjölfar kynningar Apple á nýjum útgáfum snjallsímans iPhone 5 sem fara eiga í sölu í næstu viku. Með fréttinni birti The Onion mynd af Tim Cook, forstjóra Apple.
„Á fjölmiðlaviðburði sem beðið hafði verið eftir svipti tæknirisinn Apple, í höfuðstöðvum fyrirtækisins í Sílikondal, formlega hulunni af óttaslegnum manni algjörlega lausum við hugmyndir og kynnti fyrir almenningi,“ segir í grínfrétt The Onion.
„Hvítur og horaður maðurinn, sem bar merki uppgerðaræsings, brotna rödd og að því er virðist algjöran skort á hugljómun, var settur fram til sýnis fyrir þúsundir hluthafa, sérfræðinga tæknigeirans, blaðamenn og aðdáendur, í viðburði sem sem Apple vonast til að nái að snúa við gengi félagsins.“
