Lífið

Stofna tölvuleikjafyrirtækið Klang í Berlín

Álfrún Pálsdóttir skrifar
Oddur Snær stofnar tölvuleikjafyrirtæki ásamt Munda og Ívari.
Oddur Snær stofnar tölvuleikjafyrirtæki ásamt Munda og Ívari. Fréttablaðið/Anton

„Þetta hefur verið draumur hjá okkur í þó nokkurn tíma,“ segir Oddur Snær Magnússon, sem ásamt félögum sínum, Ívari Emilssyni og fatahönnuðinum Guðmundi Hallgrímssyni, sem er einnig þekktur sem Mundi, stofnar tölvuleikjafyrirtæki í Berlín.

Fyrirtækið heitir Klang en bæði Oddur og Ívar eiga að baki mörg ár hjá tölvuleikjarisanum CCP, sem forritari og leikjahönnuður.

„Við vorum búnir að viða að okkur þeirri þekkingu og reynslu sem við þurftum og fannst einfaldlega núna vera kominn tími til að kýla á þetta,“ segir Oddur en þeir Ívar og Mundi eru þegar fluttir til Berlínar og sjálfur slæst hann í hópinn eftir helgi.

„Þetta er allt að fara af stað núna og á byrjunarreit. Við erum að ákveða hvar við ætlum að búa og svo framvegis.“

Ástæðan fyrir því að Berlín varð fyrir valinu er einfaldlega að borgin heillaði. Mundi hefur hingað til verið betur þekktur sem fatahönnuður en gera má ráð fyrir því að hann hafi eitthvað að gera með útlit tölvuleikja fyrirtækisins að gera. Oddur vill sem minnst segja um þau mál enn sem komið er.

„Við erum eins og fullskipuð hljómsveit. Allir leggja sitt af mörkum og það eru spennandi tímar fram undan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×