Skoðun

Gleymum ekki stóru smámálunum

Sigurður Jónas Eggertsson skrifar
Í byrjun næsta mánaðar taka gildi ný lög sem breyta greiðsluþátttöku ríkisins vegna kaupa á lyfjum. Markmiðið með lögunum er að auka jöfnuð milli einstaklinga óháð sjúkdómum og draga úr útgjöldum þeirra sem mest þurfa á lyfjum að halda.

Fjölmargir þurfa að taka inn lyf að staðaldri til þess að geta tekið þátt í daglegu lífi. Þetta á t.d. við um marga flogaveika, ofvirka og við þá sem eru með Tourette-heilkenni svo eitthvað sem nefnt.

Sá galli er á gjöf Njarðar að bæði markmiðin missa marks. Lyf við þessum kvillum eru eins og er niðurgreidd að hluta eða öllu leyti og því munu útgjöld margra sem nauðsynlega þurfa á lyfjum að halda aukast en ekki minnka. Væntanlega má færa rök fyrir því að lagabreytingin auki jöfnuð milli einstaklinga óháð sjúkdómum en það er lítil huggun þeim sem standa frammi fyrir stórauknum lyfjakostnaði.

Því miður vill það brenna við þegar leysa á tiltekið vandamál að það gleymist að hugsa um heildarmyndina. Það er t.d. mjög algengt að samhliða flogaveiki glími einstaklingar við aðrar raskanir svo sem ofvirkni, einhverfu og/eða þroskahömlun. Meðhöndlun er ekki eingöngu bundin við inntöku lyfja heldur einnig meðferð hjá sérfræðingum eins og iðjuþjálfum, þroskaþjálfurum, talmeinafræðingum og sjúkraþjálfurum svo eitthvað sé talið upp.

Ef auka á jöfnuð milli einstaklinga óháð sjúkdómum þá er ekki eingöngu hægt að horfa til þátttöku ríkisins í lyfjum. Horfa þarf á heildarkostnað fjölskyldunnar sem einstaklingurinn tilheyrir vegna sjúkdómsins.

Við í Dögun samþykktum á landsfundi okkar nú í mars að falla frá breytingum á greiðsluþátttökukerfi Sjúkratrygginga Íslands og vona ég að við fáum brautargengi í komandi kosningum til að vinna að þessu máli á þingi því hér er mikið hagsmunamál á ferð, ekki síst fyrir fjölskyldur veikra barna.

Ég hef heyrt í mörgu fjölskyldufólki sem hefur miklar áhyggjur af lyfjakostnaði eftir að breytingarnar taka gildi í maí og það er sorgleg staða sem fráfarandi ríkisstjórn skilur mörg heimili eftir í.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×