Skoðun

Hver eru heimili landsins?

Valur Þráinsson skrifar
Í þeirri kosningabaráttu sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur hefur nokkrum flokkum orðið tíðrætt um að nauðsynlegt sé að setja heimili landsins í sérstakan forgang.

Megináhersla Framsóknarflokksins er t.d. sú að „stökkbreytt verðtryggð húsnæðislán verði leiðrétt“, óháð því hvort viðkomandi heimili þurfi á skuldaniðurfellingu að halda. Rökstuðningurinn fyrir fyrrgreindri tillögu er eftirfarandi:

„Það er ekki okkar að ákveða hverjir „eiga skilið“ að fá lán sín leiðrétt. Þeir sem voru með verðtryggð húsnæðislán urðu fyrir skaða í hruninu. Hann þarf að bæta.“ Einnig má finna í stefnuskrá Dögunar að flokkurinn vilji „tafarlaust afnám verðtryggingar á neytendalánum og almenna leiðréttingu húsnæðislána“.

Þeir einstaklingar og fjölskyldur sem virðast m.a. hafa gleymst í þessari umræðu eru t.d. aldraðir sem búa á hjúkrunarheimilum, námsmenn sem búa í leiguhúsnæði, lágtekjufólk sem býr í húsnæði á vegum hins opinbera, fjölskyldur og einstaklingar sem eiga ekki nægilegt fé til þess að kaupa húsnæði og þeir aðilar sem kjósa einfaldlega að búa í leiguhúsnæði. Samkvæmt rannsókn Hagstofunnar á útgjöldum heimilanna var þessi hópur um 27% heimila á árunum 2009-2011.

Það sem hefur gleymst er sú staðreynd að lánakjör og „stökkbreytt lán“ sem eigendur leiguhúsnæðisins borga af hafa áhrif á það leiguverð sem leigjendum stendur til boða á leigumarkaði. Leigjendurnir greiða því í reynd af þeim lánum sem hvíla á húseignunum sem þeir leigja.

Spurningarnar sem þarf því að svara eru tvær:

1. Hvers vegna telja frambjóðendur þeirra flokka sem vilja almenna leiðréttingu á húsnæðislánum þá sem búa í leiguhúsnæði ekki vera hluta af „heimilunum í landinu“?

2. Ef leiðrétta á „stökkbreytt“ verðtryggð húsnæðislán, hvers vegna á þá ekki að bæta leigjendum fyrir þann tíma sem þeir hafa óbeint greitt af lánunum, þá væntanlega með „stökkbreyttri“ húsaleigu?




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×