Skoðun

Allir vilja vinna

Valgerður Magnúsdóttir skrifar
Frá því að núverandi ríkisstjórn tók við stjórnartaumunum við afar erfiðar aðstæður hefur mikill árangur náðst þótt enn sé verk að vinna. Gríðarlegum halla á ríkissjóði hefur verið breytt í jöfnuð. Atvinnulífið hefur tekið við sér, hagvöxtur aukist og atvinnuleysi minnkað úr 8,1% í febrúar 2009 í 4,7% í febrúar 2013.

Þakka má margs konar aðgerðum, svo sem námskeiðum fyrir ungt fólk í atvinnuleit, styrkveitingum og átakinu „Allir vinna“, sem hefur verið framlengt til 1. janúar 2014.

Nýliðinn landsfundur Samfylkingarinnar gerði samþykkt um eitt samfélag fyrir alla, jöfn tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu og aðstoð í samræmi við þarfir. Til þess þarf að samræma lög um velferðarþjónustu þannig að skóla-, félags- og heilbrigðisþjónusta myndi eina heild og þjóni öllum jafnt. Öllum þarf að tryggja mannsæmandi lífsviðurværi. Samhjálp á að efla sérhvern einstakling til að nýta hæfileika sína, sér og öðrum til hagsbóta, en ekki vera ölmusa.

Möguleikar á endurhæfingu eru nú fleiri og betri. Áfram þarf að halda á þeirri braut því virkni eykur lífsgæði og allir vilja vinna. Mikilvægt er að allir eigi kost á góðri endurhæfingu en nú anna tilboð ekki eftirspurn og tengjast ekki umsóknum um lífeyri með skilvirkum hætti. Tryggingabætur og jafnvel atvinnuleysisbætur eru hærri en lægstu laun, þannig að hvati til starfs verður takmarkaður.

Það á hins vegar að borga sig fyrir alla að vinna. Með því ná einstaklingar, fjölskyldur og þjóðin öll árangri. Í annarri efnisgrein í stefnuyfirlýsingu Samfylkingarinnar segir: „Það er grundvallarsjónarmið Samfylkingarinnar að sérhverjum einstaklingi verði tryggð skilyrði til að rækta hæfileika sína og nýta í þágu eigin velferðar, samfélags síns og komandi kynslóða.“ Þegar þessi sjónarmið eru höfð að leiðarljósi vinna allir.




Skoðun

Sjá meira


×