Skoðun

Bullið í Oddnýju

Ásta Kristrún Ólafsdóttir skrifar
Oddnýju Sturludóttur er kært að tala um skóla án aðgreiningar en hún hvorki hlustar né heyrir það sem aðrir hafa að segja.

Það er auðvelt að segjast ekki ætla að loka sérskólum þegar maður er þegar búinn að því! Annað hvort veit Oddný ekki betur eða hún er vísvitandi að slá ryki í augu fólks. Öskjuhlíðarskóli var lagður niður árið 2008! Síðan þá hefur sá hópur þroskahamlaðra barna sem átti inni í Öskjuhlíðarskóla, verið þvingaður í almenna skóla.

Það er réttur þessara barna, líðan þeirra og velferð sem okkur foreldrum er hugleikinn en Oddný vill ekki ræða það. Hún bullar bara um eitthvað sem hljómar vel, eins og endurbætur á Klettaskóla.

Endurbætur á Klettaskóla bæta hag þessara barna ekkert því þau fá ekki að vera Klettaskóla!

Þátttökubekkirnir sem Oddný nefnir, gera ekki heldur neitt fyrir þessi börn því þátttökubekkir eru ekki ætlaðir þeim.

Það bætir ekki líðan þroskahamlaðs barns sem þjáist í almennum skóla að fá að vita að meirihluti hagsmunaaðila sem tjáðu sig um stefnuna um skóla án aðgreiningar, hafi verið ánægður með hana.

Stuðningur við börn í Fellaskóla sem hafa ekki íslensku að móðurmáli kemur þessu máli akkúrat ekkert við. Né heldur aukinn fjárstuðningur til frístunda.

Það bætir ekki það ranglæti sem þessi börn eru beitt þótt skóla- og frístundasvið lofi að styðja betur við skóla án aðgreiningar. Rétt er að benda Oddnýju á að borgin hefur haft fjörutíu ár til að þróa stefnuna um skóla án aðgreiningar og það er barnsleg einfeldni að halda að fólk treysti loforðum fólks sem virðist vera sama um velferð fatlaðra barna og hunsar vilja foreldra.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×