Íslenski boltinn

Lars vill spila við sterk lið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lars Lagerbäck valdi Rússland yfir aðra mögulega mótherja.
Lars Lagerbäck valdi Rússland yfir aðra mögulega mótherja. Mynd/Vilhelm
Íslenska karlalandsliðið í fótbolta mætir Rússlandi í vináttulandsleik í Marbella á Spáni á morgun en þetta er fyrsti leikur liðsins á árinu 2013. KSÍ birti í gær svör landsliðsþjálfarans Lars Lagerbäck á blaðamannafundi með rússnesku pressunni.

„Við höfðum úr nokkrum möguleikum að velja hvað mótherja varðaði á þessum leikdegi. Af þeim var Rússland mest spennandi kosturinn, með eitt af tíu til fimmtán bestu landsliðum heims að mínu mati, og með einn af þekktustu og reynslumestu þjálfurum heims í Fabio Cappello," sagði Lars Lagerbäck um leikinn við Rússa.

„Við viljum spila við sterkar þjóðir, þannig lærum við mest hvernig við getum spilað gegn þessum sterku liðum. Ísland er fámenn þjóð, rétt rúmlega 300 þúsund, en Rússar eru 150 milljónir manna. Við erum samt með marga unga leikmenn sem geta náð langt og suma sem hafa þegar náð langt og geta náð enn lengra. Við lærum mest á því að spila með þessum leikmönnum við lið eins og Rússland, mjög sterkt lið með mjög öfluga leikmenn," sagði Lars.

Þetta er fjórði vináttuleikur Íslands á móti topp þrjátíu þjóð síðan Lars tók við fyrir ári. Liðið tapaði á móti Japan (30. sæti), Svíþjóð (17. sæti) og Frakklandi (16. sæti) en svo er að sjá hvað gerist á móti Rússum á morgun en þeir eru eins og er í 9. sæti á heimslistanum. Leikurinn verður í beinni á Stöð2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×