Sóknarmaðurinn Gonzalo Higuain var sterklega orðaður við Arsenal í sumar en sér ekki eftir því að hafa gengið til liðs við Napoli.
Higuain kom til Napoli frá Real Madrid í sumar en þrátt fyrir mikinn áhuga Lundúnarliðsins fóru viðræður við Higuain aldrei almennilega af stað.
„Ég vissi af áhuga Arsenal en talaði aldrei við þá,“ sagði Higuain við enska fjölmiðla.
„Real Madrid átti í viðræðum við Arsenal en svo fór að Napoli keypti mig. Forráðamenn Napoli voru afar sannfærandi og ég er þakklátur félaginu og forseta þess fyrir allt það sem þeir hafa gert fyrir mig,“ bætti Higuain við.
„Rafa Benitez [stjóri Napoli] talaði einnig mikið við mig. Ég ætla ekki að fara nánar út í það sem hann sagði en hann gerði það að verkum að ákvörðunin mín var virkilega auðveld.“
Fótbolti