Viðskipti erlent

Róbótar koma pökkum til skila

Samúel Karl Ólason skrifar
Octocopter, frumgerð Amazon.
Octocopter, frumgerð Amazon. Mynd/Amazon.com
Amazon.com stefnir á að fara nokkuð nýstárlega leið í að koma pökkum til skila í náinni framtíð. Jeffrey P. Bezos, stofnandi og framkvæmdastjóri, sagði frá því í 60 Mínútum síðasta sunnudag, að fyrirtækið muni nota róbóta til að koma vörum til kaupenda á allt að 30 mínútum.

Sagðist hann vera bjartsýnismaður og spáði því að tæknin væri komin á markað innan fimm ára. Sagt er frá þessu á vef Washington Post.

Tæknin hefur verið í þróun hjá Amazon og sýndi hann frumgerð af átta hreyfla róbóta sem kallast „Octocopter“ og er með kló sem heldur pökkum.

Washington Post hefur eftir Ryan Calo, lögfræðiprófessor sem hefur mikið skrifað um notkun róbóta, að bandaríska þingið hafi verið að leita eftir hugmyndum sem þessari. Árið 2012 skipaði þingið flugumferðastjórn Bandaríkjanna að opna lofthelgi landsins fyrir róbótum og mun það gerast á næstu árum.

Ryan segir Amazon þurfi að sannfæra yfirvöld um að tæknin sé örugg og hún muni ekki leiða til umferðateppa í himnunum. Að jafnvel verði farið fram á að mennskur flugmaður stýri vélinni og það gæti hækkað kostnað við þjónustuna í náinni framtíð.

Fyrirtækið þarf einnig að yfirstíga tæknivandamál, eins og það að slíkir róbótar geta einungis flogið með létta pakka og einungis flogið í um 15 mínútur í senn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×