Íþróttasamband fatlaðra hefur útnefnt þau Helga Sveinsson, Ármanni, og Thelmu Björg Björnsdóttur, ÍFR, íþróttamenn ársins úr röðum fatlaðra.
Bæði hljóta útnefninguna nú í fyrsta sinn en Helgi varð í sumar heimsmeistari í spjótkasti í fötlunarflokki F42 þegar að HM fatlaðra í frjálsíþróttum fór fram í Lyon í Frakklandi. Hann er fyrsti karlkyns frjálsíþróttamaðurinn sem er valinn íþróttamaður ársins hjá ÍF.
Sundkonan Thelma er í fremstu röð á heimsvísu í sínum fötlunarflokki, S6, og setti á árinu 38 ný Íslandsmet. Hún komst í úrslit í öllum þeim greinum sem hún keppti í á HM fatlaðra í sund en besti árangur hennar á mótinu var fimmta sætið í 400 m skriðsundi.
