Viðskipti erlent

Hulunni svipt af greiðslufyrirkomulagi Spotify

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Eminem, Drake og Lorde eru meðal þeirra listamanna sem fjallað er um í umfjöllun Time.
Eminem, Drake og Lorde eru meðal þeirra listamanna sem fjallað er um í umfjöllun Time.
Tónlistarveitan Spotify hefur verið gagnrýnd af tónlistarfólki fyrir að grafa undan plötusölu og greiða ekki nægileg höfundaréttargjöld til listamanna. Til dæmis fjarlægði Radiohead-kempan Thom Yorke allt sólóefni sitt af síðunni fyrr á árinu og sagði að það hreinlega borgaði sig ekki fyrir sig að vera á Spotify. Þá hafa aðrir listamenn á borð við Aimee Mann og The Black Keys haldið nýjustu útgáfum sínum frá veitunni af ótta við slæm áhrif á plötusölu.

En nú hefur tónlistarveitan sett í loftið sérstaka síðu þar sem nánar er farið út í greiðslufyrirkomulagið og nefnist síðan Spotify Artists. Þar kemur meðal annars fram að Spotify hafi greitt 500 milljónir Bandaríkjadala í höfundaréttargjöld til rétthafa það sem af er þessa árs. Samanlagðar höfundaréttargreiðslur til rétthafa frá 2009 nema einum milljarði Bandaríkjadala, en það eru um 70 prósent tekja tónlistarveitunnar á tímabilinu.



Daniel Elk, stofnandi Spotify.mynd/getty
Safnast þegar saman kemur

Spotify greiðir ekki fasta upphæð fyrir hverja spilun á síðunni. Þess í stað er heildarupphæð höfundaréttargreiðslna hverju sinni skipt á milli rétthafa eftir hlutfalli þeirra af allri spilun. Þannig gætu höfundaréttargreiðslur tónlistarmanns verið misháar á milli ára þó að lög listamannsins væru spiluð jafn oft.

Fyrirtækið áætlar að hver spilun skili listamanni á milli 0,006 og 0,0084 Bandaríkjadala í höfundaréttargreiðslum. Sú tala kann að hljóma lág en samkvæmt gögnum Spotify safnast þegar saman kemur, að minnsta kosti hjá vinsælu tónlistarfólki. Vinsælasta plata hvers mánaðar er sögð skila rúmlega 400 þúsund Bandaríkjadölum í höfundaréttargreiðslum til rétthafa.

Tónlistarmaður sem vinsæll er um allan heim og Spotify kýs að nafngreina ekki skilaði rúmum þremur milljónum Bandaríkjadala í höfundaréttargreiðslum til rétthafa frá ágúst í fyrra til júlí á þessu ári. Spotify gerir ráð fyrir því að þessar tölur komi til með að hækka samhliða auknum tekjum tónlistarveitunnar, en fjöldi tónlistarfólks sem skiptir kökunni á milli sín er sagður breytast lítið.

Vefsíðan Time tók saman tíu vinsælustu lögin á Spotify næstsíðustu vikuna í nóvember og reiknaði lauslega út höfundaréttargreiðslur sem þau hafa skilað frá útgáfudegi. Listinn er svohljóðandi:

1. The Monster / Eminem / 35,1 milljón spilanir / 210.000 – 294.000 dalir

2. Timber / Pitbull / 32,0 milljón spilanir / 192.000 – 269.000 dalir

3. Lorde / Royals / 65,3 milljón spilanir / 392.000 – 549.000 dalir

4. OneRepublic / Counting Stars / 57,7 milljón spilanir / 346.000 – 484.000 dalir

5. Avicii / Hey Brother / 46,5 milljón spilanir / 279.000 – 391.000 dalir

6. Miley Cyrus / Wrecking Ball / 60,4 milljón spilanir / 363.000 – 508.000 dalir

7. Katy Perry / Roar / 64,6 milljón spilanir / 388.000 – 543.000 dalir

8. Avicii / Wake Me Up / 152,1 milljón spilanir / 913.000 – 1,3 milljón dalir

9. Drake / Hold On, We’re Going Home /47,1 milljón spilanir / 283.000 – 396.000 dalir

10. Ellie Goulding / Burn / 53,8 milljón spilanir / 323.000 – 452.000 dalir


Tengdar fréttir

Thom Yorke gagnrýnir Spotify

Thom Yorke, söngvari Radiohead, segir tónlistarveituna Spotify vera „síðasta örvæntingarfulla prump deyjandi líks.“

Metin falla á Spotify

Notendur streymdu nýjustu plötu Jay-Z 14 milljón sinnum á einni viku.

Íslendingar bætast í hóp Spotify-notenda

Ein fremsta tónlistarveita heims, Spotify, hefur starfsemi á Íslandi í dag. Tónlistarveitan býður tónlistarunnendum upp á einfalda leið til að hlusta á tónlist, án þess að greiða nokkuð fyrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×