Sport

Hrafnhildur með þrjú skólamet

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Lúthersdóttir.
Hrafnhildur Lúthersdóttir. Mynd/NordicPhotos/Getty
Hafnfirska sundkonan Hrafnhildur Lúthersdóttir er að standa sig vel með skólaliði University of Florida en hún fór á kostum á sterku sundmóti í Ohio í Bandaríkjunum um helgina.

Hrafnhildur setti þrjú skólamet á mótinu þar af tvö þeirra í einstaklingsundum. Hrafnhildur setti metin í 100 og 200 jarda bringusundi en hún hjálpaði einnig boðssundsveit skólans að setja nýtt met.

Úrslitamót bandaríska háskólasundsins fer fram í mars á næsta ári og er Hrafnhildur Lúthersdóttir búin að ná lágmörkum í sex greinum.

Tímar Hrafnhildar um helgina voru 59.55 sekúndur í 100 jarda bringusundi, 2.08.37 mínútur í 200 jarda bringusundi og 1.58.38 mínúta í 200 jarda fjórsundi. Hún náði einnig lágmörkum í 100 jarda flugsundi og sem liðsmaður í 200 jarda og 400 jarda boðssundsveit skólans.  

Hrafnhildur er nú með fjórða og fimmta bestu tímann í bringusundunum í Bandaríkjunum eins og staðan er í dag.

Hrafnhildur Lúthersdóttir er komin inn á úrslitamótið fjórða árið í röð en þetta er aðalmót bandaríska háskólasundsins á hverju ári. Sarah Blake Bateman er eini Íslendingurinn sem hefur náð því áður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×