Fótbolti

Lét stjörnu Króata heyra það í Leifsstöð

Kolbeinn Tumi Daðason í Leifsstöð skrifar
Jóhann Jóhannsson var í góðum gír þegar blaðamaður hitti hann í Leifsstöð í morgun.
Jóhann Jóhannsson var í góðum gír þegar blaðamaður hitti hann í Leifsstöð í morgun. Mynd/Vilhelm
Jóhann Jóhannsson, verslunarstarfsmaður í Leifsstöð, afgreiddi eina af skærustu stjörnum króatíska landsliðsins sem hélt af landi brott í gær.

Ivan Rakitic, sem vinnur fyrir sér sem leikmaður Sevilla á Spáni, fjárfesti í súkkulaði áður en haldið var um borð í flugvél sem flutti andstæðinga Íslands heim til Zagreb í gær.

Rakitic spurði af kurteisi hvort Jóhann vildi fá að sjá brottfaraspjald sitt við kaupin á vörunum.

„Nei, ég veit alveg hvert þú ert að fara,“ svaraði Jóhann léttur. „Ég veit líka alveg hvert þú ert ekki að fara,“ bætti Jóhann við kíminn og uppskar bros hjá Rakitic. Átti Jóhann augljóslega við að króatíska landsliðið væri á leið til Zagreb en þó ekki á leið á heimsmeistaramótið í Brasilíu næsta sumar.

Þeir félagar skildu þó sáttir og kunni Rakitic að meta húmorinn hjá Jóhanni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×