Fótbolti

Ronaldo kominn með sjö mörk í þremur Meistaradeildarleikjum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AP
Cristiano Ronaldo skoraði bæði mörk Real Madrid í 2-1 sigri á Juventus í B-riðli Meistaradeildarinnar í kvöld og er þar með kominn með sjö mörk í þremur fyrstu leikjunum í keppninni í ár.

Real Madrid er með fullt hús eftir þessa þrjá leiki og markatöluna 12-2. Juventus er nú sjö stigum á eftir spænska liðinu og missti líka tyrkneska liðið Galatasaray upp fyrir sig í 2. sæti riðilsins. Galatasaray er fimm stigum á eftir Real Madrid og tveimur stigum á undan Juve eftir 3-1 sigur á FCK Kaupmannahöfn.

Það tók Cristiano Ronaldo ekki langan tíma að koma Real Madrid í 1-0 en hann stakk sér þá inn í teiginn og fékk sendingu frá Ángel di María á hárréttum tíma. Ronaldo lék laglega á Gianluigi Buffon í markinu og sendi boltann síðan í tómt markið.

Spánverjinn Fernando Llorente, fyrrum leikmaður Athletic Bilbao, jafnaði metin á 22. mínútu þegar hann fylgdi vel á eftir þegar Iker Casillas varði skalla Paul Pogba úr þröngu færi.

Ronaldo bætti við öðru marki á 28. mínútu þegar hann skoraði af miklu öryggi úr vítaspyrnu sem dæmd var á Giorgio Chiellini fyrir brot á Sergio Ramos.

Ronaldo fiskaði síðan rautt spjald á Giorgio Chiellini á 48. mínútu og eftir það varð þetta mjög erfitt fyrir ítalska liðið. Real Madrid tókst þó ekki að nýta sér liðsmuninn í að skora fleiri mörk en fagnaði engu að síður góðum sigri og frábærri stöðu í riðlinum.

Við rauða spjaldið datt leikurinn mikið niður en fyrri hálfleikurinn var frábær skemmtun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×