Sport

Segir yfirvöld í Rússlandi fáfróð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Bode Miller hefur unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikum.
Bode Miller hefur unnið til gullverðlauna á Ólympíuleikum. Nordicphotos/AFP
Skíðakappinn Bode Miller hefur aldrei verið þekktur fyrir að liggja á skoðunum sínum. Hann segir ný lög er varða samkynhneigð í Rússlandi til skammar. Vetrarólympíuleikarnir fara fram í borginni Sochi þar í landi í febrúar.

Ólíkt flestum íþróttamönnum fór Miller mikinn og lýsti af einlægni skoðun sinni á umdeildum lögum í Rússlandi. Lögin banna áróður eða réttindabaráttu er við kemur samkynhneigð og höfða á til ungs fólks.

„Það er til skammar að til séu lönd með svo lítið umburðarlyndi,“ sagði Miller sem stefnir á þátttöku í sínum fimmtu leikum.

Gagnrýnendur segja að lögin taki fyrir kröfugöngur um jafnrétti og þannig væri hægt að sækja alla til saka sem tali fyrir auknum rétti samkynhneigðra. Fylgjendur segja lögin verja börn fyrir áróðri að því er Reuters greinir frá.

Fáir keppendur hafa tjáð sig um málið. Er sú skoðun ítrekað á lofti að keppendur hugsi aðeins um að standa sig á vellinum. Alþjóðólympíunefndin þurfi að taka á málum sem þessum.

„Ef þeir myndu leyfa mér að breyta reglunum þá myndi ég gera það um leið. Ég gæti reyndar leyst ansi mörg vandamál á skömmum tíma. Því miður hefur enginn kosið mig til þess eða gefið mér þannig völd,“ sagði Miller.

„Mín fyrstu viðbrögð eru að þetta er eitthvað sem við eigum að skammast okkar fyrir. Sem manneskju finnst mér þetta til skammar,“ sagði Miller.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×