Sport

Segja ofbeldi gagnvart dómurum ólíðandi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Úr leiknum í gær.
Úr leiknum í gær. Mynd/Aðsend
Stjórn Blaksambands Íslands hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna uppákomu í viðureign Aftureldingar og Stjörnunnar í gærkvöldi. Leikmaður Mosfellinga kýldi dómara leiksins.

Líkt og greint var frá ítarlega á Vísi í gærkvöldi sauð allt upp úr í leiknum sem Stjörnumenn unnu að lokum 3-1. Tveir leikmenn Mosfellinga voru reknir útaf eftir að hafa fengið viðvörðun. Báðir rifust heiftarlega við dómara. Annar gekk þó mun lengra þegar hann sló boltanum fyrst viljandi í dómarann og kýldi hann skömmu síðar í magann.

Dómarinn missti andann við höggið, vísaði svo leikmanninum útaf og leyfði leik að halda áfram. Frétt Vísis frá því í gærkvöldi má sjá hér.

Stjórn Blaksambands Íslands fordæmir framkomu leikmanns Aftureldingar og segir ofbeldi gagnvart dómara ólíðandi. Yfirlýsingu Blaksambandsins má lesa hér að neðan.

Stjórn Blaksambands Íslands fordæmir harðlega framkomu leikmanns Aftureldingar í leik liðsins gegn Stjörnunni í gærkvöldi.

Ofbeldi gagnvart dómurum er ólíðandi og setur ljótan blett á íþróttina sem er að öðru jöfnu þekkt fyrir prúðmannlega framkomu leikmanna.

Máli leikmannsins verður vísað til aganefndar og verður afgreitt samkvæmt reglum þar að lútandi.

Stjórn Blaksambands Íslands




Fleiri fréttir

Sjá meira


×