Sport

Selma Dóra Evrópumeistari í áströlskum fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Selma Dóra Ólafsdóttir .
Selma Dóra Ólafsdóttir . Mynd/Tómas G. Gíslason
Íslenska landsliðið í andspyrnu tók nú um helgina þátt í Evrópubikarmótinu í áströlskum fótbolta sem fram fór í Bordeaux í Frakklandi og átti Ísland bæði fulltrúa  í karla og kvennaflokki.

Í karlaflokki lék Ísland í riðli með Katalóníu og Englandi sem hefur verið eitt af betri landsliðum í Evrópu síðustu ár. Íslenska liðið vann stórsigur á Katalóníu 66-9, en tapaði illa fyrir Englandi 66-13, en England stóð síðan uppi sem sigurvegari á mótinu. Í leikjum um sæti tapaði liðið síðan fyrir Finnlandi og Spáni, og endaði í 8. sæti af 12, sem er besti árangur liðsins hingað til.  

Í ár átti Ísland líka í fyrsta skipti fulltrúa í kvennaliði á mótinu, en Siglfirðingurinn Selma Dóra Ólafsdóttir sem leikur með liði Akureyrar hér á landi spilaði með kvennaliði Crusaders sem samanstendur af leikmönnum frá ýmsum löndum. 

Aðeins voru tvö kvennalið á mótinu að þessu sinni, Frakkland og hið blandaða lið  Crusaders og í úrslitaleiknum sigraði lið Crusaders franska liðið í æsispennandi  úrslitaleik 45:26, og átti Selma góðan leik.

Páll Tómas Finnsson, leikmaður íslenska karlaliðsins, var valinn í Evrópuúrvalið að móti loknu, en hann hefur verið einn besti leikmaðurinn í Evrópu undanfarin ár og er í dag einnig þjálfari danska liðsins í áströlskum fótbolta.

Jón Einarsson, leikmaður íslenska liðsins, sigraði í Strongman aflraunakeppninni sem fram fór á mótinu og er því sterkasti leikmaðurinn í Evrópu.

Þetta er í fimmta skipti sem Ísland tekur þátt í Evrópubikarmóti í áströlskum fótbolta, en á sínu fyrsta Evrópubikarmóti sem fram fór í Króatíu árið 2009 náði liðið 9. sæti.

Ísland er sem stendur í 11. sæti Evrópulistans í áströlskum fótbolta, einu sæti á undan Finnum og einu sæti á eftir Frökkum sem lentu í öðru sæti á mótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×