Fótbolti

Ragnar og Rúrik náðu í stig á móti ítölsku meisturunum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ragnar Sigurðsson (númer 17)  og félagar horfa á eftir boltanum í mark Juve.
Ragnar Sigurðsson (númer 17) og félagar horfa á eftir boltanum í mark Juve. Mynd/AFP
Ragnar Sigurðsson spilaði allan leikinn með FC Kaupmannahöfn og Rúrik Gíslason kom inn á 69. mínútu þegar danska liðið gerði 1-1 jafntefli á móti Juventus í fyrsta leik liðann í riðlakeppni Meistaradeildarinnar.

Danska liðið var yfir í 40 mínútur en gat þakkað markmanni sínum Johan Wiland að Juve náði ekki að tryggja sér sigur í leiknum því Carlos Tevez og félagar fengu mörg góð færi í kvöld.

Ragnar og Rúrik fögnuðu vel með félögum sínum í leikslok ásamt stuðningsmönnum félagsins en þetta voru úrslit sem kannski fáir bjuggust við.

Nicolai Jörgensen kom FCK í 1-0 á 14. mínútu eftir aukaspyrnu þar sem að Ragnar Sigurðsson fór upp í skallabolta við varnarmenn Juventus og boltinn datt fyrir fætur Jörgensen.

Þannig var staðan þar til á 54. mínútu þegar Fabio Quagliarella jafnaði metin eftir fyrirgjöf frá Federico Peluso. Ragnar var þar aðeins of seint út í Quagliarella.

Juventus fékk fullt af færum til þess að tryggja sér sigur en FCK hélt út og náði að landa stiginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×