Fótbolti

Messi með þrennu í 4-0 sigri á Ajax - Kolbeinn klúðraði víti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/AFP
Argentínumaðurinn Lionel Messi sýndi enn á ný snilli sína í Meistaradeildinni þegar hann skoraði þrennu í 4-0 sigri á Ajax í fyrsta leik liðanna í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Kolbeinn Sigþórsson átti ágætan leik með Ajax en lét verja frá sér víti í stöðunni 4-0.

Lionel Messi var fljótur að koma sér á blaðið þegar hann skoraði beint úr aukaspyrnu á 21. mínútu leiksins.

Kolbeinn Sigþórsson var ógnandi í fyrri hálfleiknum og bjó til nokkrar góðar sóknir fyrir Ajax með því að vinna boltann í loftinu eða spila stutta og einfalda þríhyrninga með félögum sínum.

Kolbeinn bjó meðal annars til eitt besta færi hálfleiksins fyrir Lerin Duarte en Duarte lét Victor Valdes verja frá sér. Kolbeinn var felldur rétt utan teigs en dómarinn lét leikinn halda áfram því Duarte fékk úrvalsskotfæri.

Lionel Messi bætti við öðru marki sínu á 55. mínútu eftir sendingu frá Sergio Busquets og Gerard Piqué kom Barca síðan í 3-0 á 69. mínútu eftir sendingu Neymar.

Messi innsiglaði síðan þrennuna sína á 75. mínútu og aðeins mínútu síðar fékk Ajax víti. Kolbeinn steig fram en lét Victor Valdes verja frá sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×