Íslenski boltinn

Löng bið Elínar Mettu á enda

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Elín Metta Jensen í leiknum í gær.
Elín Metta Jensen í leiknum í gær. Mynd/Stefán
Valskonan Elín Metta Jensen skoraði tvö langþráð mörk í 6-0 sigri Vals á HK/Víkingi í Pepsi-deild kvenna í gærkvöldi. Elín Metta er áfram önnur markahæst í deildinni, nú með 14 mörk, en hún var engu að síður búin að bíða lengi eftir marki.

Elín Metta skoraði 12 mörk í fyrstu 9 deildarleikjum tímabilsins en hafði ekki fyrir leikinn í gær ekki skorað síðan 1. júlí eða í síðasta leiknum áður en hún fór með íslenska landsliðinu á EM í Svíþjóð.

Þegar Elín Metta kom Val í 4-0 á 59. mínútu var hún því búin að spila 470 mínútur í Pepsi-deildinni án þess að skora mark.

Þungu fargi er örugglega létt af þessari 18 ára stelpu sem fékk gullskóinn í deildinni í fyrra er hún skoraði 18 mörk í 18 leikjum. Elín Metta á litla möguleika á að endurtaka leikinn í ár enda Stjörnustelpan Harpa Þorsteinsdóttir með sjö marka forskot þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×