Fótbolti

Nýja njósnateymið hjá FH-ingum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson fagna saman marki með félögum sínum á síðasta tímabili.
Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson fagna saman marki með félögum sínum á síðasta tímabili. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
FH-ingarnir Hólmar Örn Rúnarsson og Guðjón Árni Antoníusson hafa lítið getað hjálpað FH-ingum inn á vellinum í sumar vegna meiðsla. Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, hefur hinsvegar fundið nýtt hlutverk fyrir þá.

Hólmar Örn hefur misst af öllum tímabilinu og Guðjón Árni, sem fékk fyrirliðabandið í upphafi sumars, hefur aðeins spilað fimm leiki í Pepsi-deildinni.

Hólmar Örn og Guðjón Árni eru í staðinn fyrir að spila orðnir nýja njósnateymið hjá FH.

Þeir félagar fór til Salzburg til að njósna um Austria Vín liðið fyrir síðustu umferð í Evrópukeppninni og kapparnir voru síðan í Belgíu um síðustu helgi til að njósna um Genk, mótherja FH í Evrópudeildinni á morgun.

„Við sendum tvo mjög öfluga leikmenn til þess að horfa á leikinn á móti Lokeren, þá Guðjón Árna og Hólmar Örn. Þetta eru miklar (mannvits) brekkur og komu með góðar upplýsingar til baka. Við teljum að við séum ágætlega undirbúnir," sagði Heimir Guðjónsson í léttum tón á blaðamannafundi í dag.

„Þeir eru búnir að vera meiddir meira eða minna í allt sumar þannig að það er ágætt að það sé hægt að nýta þá í eitthvað annað," bætti Heimir við.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×