Íslenski boltinn

Evrópuævintýri Ólsara hefst í kvöld

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Guðmundur Steinn Hafsteinsson með Íslandsmeistaratitilinn.
Guðmundur Steinn Hafsteinsson með Íslandsmeistaratitilinn. Mynd/Anton
Víkingur frá Ólafsvík mætir eistneska liðinu Anzhi Tallinn í fyrsta leiknum í forkeppni Evrópukeppni félagsliða í innifótbolta, Futsal, í Ólafsvík í kvöld.

Víkingur er Íslandsmeistari í Futsal og fékk því þátttökurétt fyrir hönd Íslands. Auk liðanna tveggja er Athina '90 frá Grikklandi í riðlinum sem fer allur fram í Ólafsvík.

Forráðamenn Víkings sóttust eftir því að fá að spila riðilinn hér á landi. Í júní var svo tilkynnt að UEFA hefði samþykkt beiðni Víkings.

Leikið verður í íþróttahúsinu í Ólafsvík og hefst ballið í kvöld klukkan 20. Annað kvöld mætast svo eistneska og gríska liðið. Á fimmtudagskvöld mætir Víkingur liði Athinu í lokaleiknum.

Riðill Víkings er einn átta í forkeppninni. Sigurvegari hvers riðils kemst í aðalkeppnina sem hefst í október. 16 lið hefja leik í aðalkeppninni og því verða þau 24 að lokinni forkeppni.

Leikjadagskrá forkeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×