Sport

Áttatíu spreyttu sig en Birni Róberti boðinn samningur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björn Róbert eftir landsleik í vetur.
Björn Róbert eftir landsleik í vetur. Mynd/Instagram
Landsliðsmaður Íslands í íshokkí, Björn Róbert Sigurðarson, leikur með liði Aberdeen Wings í NAHL-deildinni í Bandaríkjunum í vetur.

Björn Róbert, sem er fæddur árið 1994, segist hafa fengið fyrirspurnir eftir HM 20 ára landsliða í vetur. Flestar þeirra hafi komið frá Kanada.

„Ég var upprunalega á leiðinni í æfingabúðir til Kanada en fór einnig í æfingabúðir hjá Aberdeen Wings. Mér leist mjög vel á þjálfarann, liðið og úr varð að ég tók tilboði þeirra," segir Björn Róbert við Vísi.

Um áttatíu leikmenn spreyttu sig hjá Aberdeen Wings en svo fór að aðeins einum var boðinn samningur, Birni Róberti.

Björn Róbert lék með Hvidövre í Danmörku á síðasta ári en færir sig nú vestur um haf. Hann segist stefna á að komast að hjá háskólaliði vestanhafs í framhaldinu. Hann mun stunda nám í Aberdeen samhliða íshokkíðikun sinni.

„Ég er mjög spenntur og hlakka mikið til að takast á við þetta. Ég met möguleika mína góða hjá liðinu og líst vel á þjálfarann," segir Björn Róbert. Hann segir NAHL-deildina eina þá elstu og öflugustu ungmennadeildina vestanhafs með 24 félögum víðsvegar um Bandaríkin.

Patrick Kane, ein aðalstjarna Chicago Blackhawks, lék tvö tímabil í deildinni á sínum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×