Íslenski boltinn

Fyrsta mark Nadiu kom ÍBV upp í annað sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Bryndís Jóhannesdóttir skoraði fyrir ÍBV í kvöld.
Bryndís Jóhannesdóttir skoraði fyrir ÍBV í kvöld. Mynd/Valli
Velski framherjinn Nadia Lawrence tryggði ÍBV sigur á Íslandsmeisturum Þór/KA þegar liðin mættust í Eyjum í Pepsi-deild kvenna í kvöld. Þetta var fyrsta mark Nadiu í Pepsi-deildinni á þessu tímabili og það kom Eyjaliðinu upp í annað sæti deildarinnar.

Eyjakonur héldu jafnframt áfram sigurgöngu sinni á Hásteinsvellinum en liðið hefur unnið alla fjóra deildarleiki sína á vellinum í sumar og skorað í þeim 19 mörk.

Þór/KA liðið tapaði hinsvegar þarna sínum fyrsta útileik síðan sumarið 2011 en liðið tapaði ekki leik á útivelli í fyrra (7 sigrar og 2 jafntefli) og var búið að vinna þrjá fyrstu útileiki sína í sumar.

Sandra María Jessen náði tvisvar að jafna metin fyrir Þór/KA en það var ekki nóg. Sandra María er hinsvegar að komast á fullt eftir meiðslahrjáð sumar hingað til en hún hefur skorað fjögur mörk í síðustu tveimur leikjum.

Shaneka Jodian Gordon (4. mínúta) og Bryndís Jóhannesdóttir (19. mínúta) komu ÍBv tisvar yfir í fyrri hálfleik en í millitíðinni þurfti Mateja Zver hjá Þór/KA að fara meidd af velli.

Sigurmark Nadia Lawrence kom síðan á 53. mínútu leiksins eða aðeins fjórum mínútum eftir að Sandra María hafði jafnað í seinna skiptið.

Upplýsingar um markaskorara eru fengnar af úrslit.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×