Leikmenn íslenska kvennalandsliðið munu spila með sorgarbönd þegar liðið mætir Danmörku í æfingaleik ytra síðar í dag vegna fráfalls Ólafs E. Rafnssonar, forseta ÍSÍ.
Þetta kemur fram á heimasíðu Knattspyrnusambands Íslands en þar eru félög á Íslandi einnig beðin um að hafa mínútuþögn fyrir næstu leiki sína í meistaraflokkum karla og kvenna, hvort sem er í deildar- eða bikarleik.
Ólafur varð bráðkvaddur í Sviss í gær þar sem hann sótti fund Alþjóðakörfuknattleikssambandsins. Hann var forseti Körfuknattleikssambands Evrópu og lék með íslenska landsliðinu í körfubolta á sínum tíma.
Leikur Danmerkur og Íslands hefst klukkan 16.00 í dag.
