Sport

Gunnar Nelson byrjaður að æfa á ný

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar

„Hann er byrjaður að rúlla aðeins á dýnunni,“ sagði Haraldur Dean Nelson, faðir og umboðsmaður bardagakappans Gunnars Nelson.

Gunnar gekk nýverið undir aðgerð á hné þar sem gert var að sködduðum liðþófa. Af þeim sökum varð hann að hætta við þátttöku í stóru bardagakvöldi UFC sem fór fram í Las Vegas í lok síðasta mánaðar.

„Hann fékk að glíma í 20-30 mínútur og fann ekki fyrir neinum verkjum. Ætlunin var að hann væri búinn að ná fullum styrk í lok sumars og þetta er allt eftir planinu,“ sagði Haraldur í samtali við Vísi í morgun.

Haraldur segir að það hafi verið eitthvað um vökvasöfnun í hnénu eins og er eðlilegt eftir slíkar aðgerðir. Gunnar vill ekki láta tappa af hnénu eins og stundum er gert heldur leyfa líkamanum að losa sig við vökvann sjálfur.

„Hann hefur verið duglegur að synda og er mikið í sjósundi. Hann hefur stundað það á hverjum degi í nokkurn tíma og finnst það hjálpa til. Hann hefur tröllatrú á sjósundi.“

Haraldur segir að það hafi ekki verið erfitt fyrir hann að fylgjast með UFC-bardagakvöldinu í Las Vegas, þar sem Gunnar átti sjálfur að keppa. „Hann var löngu búinn að sætta sig við þetta. Auðvitað var það ekki skemmtilegt að þurfa að hætta við enda er þetta ein af þremur stærstu UFC-sýningum á ári hverju.“

„En hann horfði á bardagana og hafði gaman að eins og ávallt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×