Fótbolti

Gunnhildur Yrsa meidd

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Líklegt er að Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hafi svitnað þegar hann fylgdist með gangi mála hjá landsiðsmönnum í leikjum með liðum sínum í kvöld.

Þóra Björg Helgadóttir tognaði aftan í læri í 2-2 jafntefli LdB Malmö gegn Tyresö í efstu deild sænsku knattspyrnunnar. Þá sat Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir allan tímann á varamannabekknum í 4-2 sigurleik Arna-Björnar gegn botnliði Sandviken.

Gunnhildur Yrsa staðfesti í samtali við Vísi að hún hefði meiðst í aðdraganda leiksins. Ákveðið hefði verið að tefla ekki á tvær hættur. Óljóst er hve alvarleg meiðsli landsliðskonunnar eru en það mun koma í ljós á næstum dögum.

Sigurður Ragnar sagði á blaðamannafundi landsliðsins í dag að Gunnhildur Yrsa væri ein þeirra sem hann ætlaði að taka stöðuna á í landsleiknum gegn Dönum ytra þann 20. júní. Mikil óvissa ríkir hvort Gunnhildur verði klár í slaginn fyrir þann tíma.

Meiðslalisti landsliðsins lengist með hverjum deginum. Þegar er Sif Atladóttir meidd og óvíst hvort hún geti leikið á Evrópumótinu. Katrín Ómarsdóttir er að jafna sig á meiðslum og þá er Hólmfríður Magnúsdóttir í kapphlaupi við tímann að komast í sitt besta form.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×