Sport

Arnar vel stemmdur fyrir opna þýska

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Arnar Helgi er mættur til Þýskalands.
Arnar Helgi er mættur til Þýskalands. Mynd/Íþróttasamband fatlaðra

Arnar Helgi Lárusson er þessa dagana staddur í Berlín í Þýskalandi þar sem hann tekur þátt í opna þýska meistaramótinu í frjálsum íþróttum fatlaðra.

Arnar Helgi er um þessar mundir eini Íslendingurinn sem stundar hjólastólakappakstur (e. Wheelchair-racing) en í lok árs 2012 hélt hann utan til London og flutti heim sérsmíðaðan kappaksturshjólastól.

Á laugardag keppir Arnar Helgi í 100 metra spretti og daginn eftir í 200 metra sprett. Arnar finnur sig vel ytra því á æfingu í gær náði hann sínum besta tíma í 100 metra spretti er hann kom í mark á 18,95 sekúndum.

Heimsmetið í þessari grein í flokki Arnars (T53) er 14,47 sekúndur og besti tími ársins til þessa er 14,68 sek. Þann tíma á Kanadamaðurinn Brent Lakatos.

Framganga Arnars í íþróttinni hefur vakið verðskuldaða athygli því hann hefur aðeins æft í stólnum í um það bil hálft ár. Hafa skal í huga að hann reynir fyrir sér í einni stærstu og vinsælustu íþróttagrein fatlaðra í heiminum.

Fylgst verður með gangi mála hjá Arnari á Facebook-síðu Íþróttasambands fatlaðra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×