Formúla 1

Williams verður með Mercedes-vélar 2014

Birgir Þór Harðarson skrifar

Williams-liðið í Formúlu 1 verður með Mercedes-vélar á næsta ári. Þetta var staðfest í dag. Williams hefur verið drifið af Renault síðan 2012 eftir að hafa verið í vélavandræðum með Cosworth.

Samningur Mercedes og Williams er til langs tíma svo áhugamenn um Formúlu 1 verða að venjast hugakinu Williams-Mercedes. Mercedes-vélarnar hafa undanfarin ár skilað mestu afli allra véla í Formúlu 1. Nú þegar skaffar Mercedes Force India, McLaren og sínu eigin liði vélar.

McLaren-liðið hefur notað Mercedes-vélar síðan um miðjan tíunda áratuginn en næsta ár verður það síðasta því Honda hefur gert samning um að skaffa liðinu vélar frá og með 2015.

Williams-liðið er eitt af þeim sigursælustu í Formúlu 1 þó árangurinn hafi ekki verið upp á marga fiska síðustu ár. Á níunda áratugnum voru bílar liðsins drifnir af Renault og reyndist það samstarf vel. Liðið landaði í það minnsta þremur heimsmeistaratitlum.

Árið 2000 steig BMW inn á sjónarsviðið í Formúlu 1 og skaffaði Williams vélar. Enn reyndist það vel og vann liðið nokkra sigra. BMW kaus svo að slíta sig frá Williams þegar þeir tóku yfir Sauber-liðið árið 2006.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×