Sport

Vignir valin bestur í hundraðasta landsleiknum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vignir Hlöðversson með fyrirliða Grikkja fyrir leikinn.
Vignir Hlöðversson með fyrirliða Grikkja fyrir leikinn. Mynd/Blaksambands Íslands

Vignir Hlöðversson lék sinn hundraðasta landsleik á 46 ára afmælisdaginn í gær þegar íslenska karlalandsliðið í blaki tapaði 0-3 fyrir Grikkjum (25-8,25-13,25-12) í riðlakeppni HM. Leikurinn fór fram í Halmstad í Svíþjóð.

Grikkir eru með ógnarsterkt lið og hafa margsinnis leikið í úrslitakeppnum stórmóta. Þeir tefldu fram sínu sterkasta liði gegn Íslandi í gær og gáfu engin færi á sér. Það var fljótt ljóst hvert stefndi og íslensku piltarnir náðu sér engan veginn á strik í fyrstu hrinunni sem tapaðist stórt 25-8.

Grikkir unnu næstu tvær hrinur örugglega en leikur Íslands batnaði eftir því sem leið á. Róbert Hlöðversson var atkvæðamestur í liði íslands með 7 stig. Bróðir hans Vignir lék sem uppspilari og var valinn besti maður Íslands í leiknum. Það var við hæfi enda stóráfangi í höfn hjá honum. Hann er nú leikjahæsti blakmaður Íslands frá upphafi.

Í seinni viðureign dagsins mörðu Svíar Norðmenn 3-2 og hafa því tryggt sér að minnsta kosti annað sætið í riðlinum. Íslendingar mæta Norðmönnum í dag í lokaleik sínum á HM í bili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×