Sport

Sigríður Hrönn og Valgarð unnu brons á NM unglinga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir.
Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir. Mynd/Fimleiksamband Íslands

Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir og Valgarð Reinhardsson unnu bæði til bronsverðlauna í dag á Norðurlandameistaramóti unglinga í áhaldafimleikum í Elverum Noregi. Ísland átti þrjá keppendur í úrslitum í dag og unnust eins og áður sagði tvö brons.

Sigríður Hrönn vann til bronsverðlauna á gólfi en Valgarð vann til bronsverðlauna á svifrá. Að auki tók Sigríður Hrönn þátt í úrslitum á stökki og lenti í 6.sæti þar. Kristjana Ýr Kristinsdóttir keppti í úrslitum á tvíslá og lenti í 5.sæti.

Sigríður Hrönn Bergþórsdóttir vann tvo brons á mótinu því hún hjálpaði íslensku sveitinni að vinna brons í sveitakeppninni í gær. Valgarð lenti þá í 4.sæti í fjölþraut og var því hársbreidd að krækja í tvö verðlaun á mótinu.

Stjarna mótsins var hin sænska Emma Larsson sem gerði sér lítið fyrir og vann öll áhöld í dag ásamt því að vinna fjölþraut í gær og hún var líka í sænsku sveitinni sem vann liðakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×