Sport

Mikil endurnýjun í stjórn ÍBV | Páll áfram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigursveinn Þórðarson.
Sigursveinn Þórðarson. Mynd/Eyjafréttir.is

Framhaldsaðalfundur ÍBV var haldinn í gær og lét þar Jóhann Pétursson af formennsku. Sigursveinn Þórðarson var kjörinn nýr formaður.

Þetta kom fram á vef Eyjafrétta í dag. Í síðasta mánuði var fjallað um óánægju innan fráfarandi stjórnar en ónefndir menn í stjórn voru sagðir taka sérhagsmuyni ákveðinna deilda fram yfir hagsmuni félagsins.

Páll Magnússon, útvarpsstjóri, og Stefán Jónsson sendu þá frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu að gagnrýni þeirra tveggja hefði beinst að stefnu félagsins varðandi Þjóðhátíð, sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna í fjármögnun starfssemi ÍBV.

Þeir könnuðust enn fremur ekki við að það væru átök innan stjórnar um einstakar íþróttagreinar.

Páll og Stefán gáfu einir kost á sér áfram til stjórnarsetu og voru kjörnir áfram. Hinir fimm meðlimir fráfarandi stjórnar gáfu ekki kost á sér áfram.

Íris Róbertsdóttir er varaformaður, Guðmundur Ásgeirsson gjaldkeri og Arnar Richardsson ritari. Aðrir í stjórn eru Ingibjörg Jónsdóttir, Styrmir Sigurðarson, Hannes Sigurðsson auk Páls og Stefáns.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×