Viðskipti erlent

Forstjórastarf Century Aluminum gaf af sér 250 milljónir í fyrra

Michael Bless forstjóri Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, fékk samtals tæpar 2,2 milljónir dollara eða um 250 milljónir króna í laun, bónusa og kaupréttargreiðslur á síðasta ári.

Þetta kemur fram í ársskýrslu Century Aluminum sem send hefur verið til Kauphallarinnar. Þar segir að af þessari upphæð hafi regluleg laun Bless á árinu numið 730.000 dollurum.  Þeim til viðbótar fékk Bless tæplega 366.000 dollara í kaupréttargreiðslur tengdar við hlutabréf í félaginu og rúmlega 845.000 dollara í bónusa.  Þá fékk hann tæplega 247.000 dollara greidda inn á eftirlaunareikning sinn.

Í ársskýrslunni kemur m.a. fram að laun og aðrar greiðslur Bless hækkuðu töluvert á milli áranna 2011 og 2012 en þær námu rúmlega 1,4 milljónum dollara árið 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×