Fótbolti

Ætlar ekki að borða með Bæjurum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Watzke (fyrir miðju) og Karl-Heinz Rummenigge (til hægri) hjá Bayern München á góðri stundu.
Watzke (fyrir miðju) og Karl-Heinz Rummenigge (til hægri) hjá Bayern München á góðri stundu. Nordicphotos/Getty
Hans-Joachim Watzke, framkvæmdastjóri Borussia Dortmund, segist ekki ætla að snæða hádegisverð með kollegum sínum hjá Bayern München um helgina.

Dortmund tekur á móti Bayern München á heimavelli sínum í þýsku deildinni á laugardaginn en Bæjarar hafa þegar tryggt sér titilinn. Watzke segist í samtali við Reuters-fréttastofuna að hann sé pirraður á hegðun Bæjara undanfarnar vikur.

„Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Bæjurum og talað vel um félagið. En nú andar köldu," segir Watzke. Segir hann nokkur atvik undanfarnar vikur ástæðan og líklega eru kaup Bæjara á Mario Götze frá Dortmund ein ástæðan.

Tilkynnt var um kaupin rétt fyrir fyrri leik Dortmund og Real Madrid í Meistaradeildinni fyrir tíu dögum. Tímasetningin var skrýtin að margra mati en Götze gengur í raðir Bæjara í sumar.

„Af hverju ættum við að láta eins og allt sé í lagi?" segir Watzke sem hefur farið fyrir uppbyggingu Dortmund sem varð nærri því gjaldþrota árið 2005.

Liðsmenn Dortmund fögnuðu í Madríd á þriðjudagskvöld.Nordicphotos/Getty
„Það verður enginn hádegisverður með Bæjurum. Við látum handabanið nægja," segir Watzke.

Liðin mætast svo aftur í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu á Wembley þann 25. maí.

Watzke komst í fréttirnar á þriðjudagskvöldið þegar Dortmund tryggði sér sætið í úrslitaleiknum í Meistaradeildinni. Kappinn læsti sig inni á klósetti eftir að Real Madrid komst í 2-0. Hann kom þó út fyrir rest.

Sportið á Vísi er komið á Facebook. Fylgstu með.


Tengdar fréttir

Læsti sig inni á klósetti

Hans-Joachim Watzke, stjórnarformaður Dortmund, átti erfitt með að fylgjast með lokamínútunum á Bernabeu í Madríd í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×