Fótbolti

Mourinho hrósar þýskum fótbolta

Fyrri farmiðinn í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu verður gefinn út í kvöld en þá tekur Real Madrid á móti Dortmund. Það er verk að vinna hjá spænska stórliðinu eftir að hafa steinlegið, 4-1, í fyrri leiknum í Þýskalandi.

Jose Mourinho, þjálfari Real Madrid, hrósaði þýsku liðunum fyrir leikinn í kvöld.

"Það kemur mér ekki á óvart að Dortmund sé komið í þessa stöðu því ég sagði í upphafi vetrar að liðið væri eitt það sigurstranglegasta. Það er búið að byggja upp frábært lið þarna og umgjörðin í kringum liðið og þjálfarann til fyrirmyndar," sagði Mourinho.

"Bæði þýsku liðin í undanúrslitunum eru frábær sem og landslið Þjóðverja. Það er komin upp frábær kynslóð knattspyrnumanna í Þýskalandi og liðið er líklegt til afreka á næsta HM."

Mourinho var eðlilega ekki nógu ánægður með sitt lið í fyrri leiknum. Sagði að sínir menn hefðu spilað eins og þetta hefði verið vináttuleikur. Þeir hefðu þess utan verið allt of linir við Robert Lewandowski sem skoraði öll fjögur mörk Dortmund í leiknum.

"Við vorum barnalegir í því hvernig við vörðumst Lewandowski. Við brutum aldrei á honum. Það var búið að brjóta fimm sinnum á Ronaldo í upphafi leiksins. Hvernig er hægt að spila í 90 mínútur og ekki brjóta einu sinni á manni sem skorar fjögur mörk?"

Leikurinn hefst klukkan 18.45 og er í beinni á Stöð 2 Sport. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×