Sport

Geta útrýmt íþróttum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Alexander Petersson eru glæsilegir fulltrúar íslensks handbolta.
Hrafnhildur Ósk Skúladóttir og Alexander Petersson eru glæsilegir fulltrúar íslensks handbolta. Mynd/ÍSÍ
Ólafur Rafnsson, forseti Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, telur að hagræðing úrslita í tengslum við ólöglega veðmálastarfsemi geti útrýmt íþróttum eins og við þekkjum þær í dag.

Þetta kom fram í ávarpi Ólafs á 71. íþróttaþingi ÍSÍ í gær. Hann segir að ógnin sem felist í hagræðingu úrslita muni kalla á meiri úrræði á komandi árum.

„Getur sú ógn – með tilkomu skipulegrar glæpastarfsemi – útrýmt íþróttum eins og við þekkjum þær í dag á tiltölulega skömmum tíma.  Áhorfendur munu ekki mæta á kappleiki ef úrslit eru fyrirfram ákveðin, foreldrar munu ekki senda börn sín í íþróttir, stuðningsaðilar munu leita annað og samfélagslegur ávinningur af íþróttastarfsemi mun minnka,“ segir Ólafur. Gegn þessu þurfi að berjast.

Ólafur kom víða við í ræðu sinni. Gagnrýndi hann stjórnvöld fyrir að veita ekki nógu miklu fé í íþróttahreyfinguna og benti á það mikla sjálfboðaliðastarf sem fram fer í íslensku íþróttalífi.

Þá minntist Ólafur á að skylda væri fyrir íþróttahreyfinguna að gæta þess að kröfur um íþróttamannvirki séu byggð á skynsömum hagkvæmnissjónarmiðum. Að notagildi ráði för umfram útlitshönnun og íburð.

„Gæta skal að hagkvæmni með samnýtingu yfir landamæri sveitarfélaga þar sem það er skynsamlegt – og að ekki sé ráðist í óhagkvæmar framkvæmdir á grundvelli „það er komið að mér“ reglunnar einnar saman,“ sagði Ólafur.

Ræðu Ólafs í heild sinni má lesa hér.


Tengdar fréttir

Albert, Jóhannes og Sigurjón í Heiðurshöll ÍSÍ

Albert Guðmundsson knattspyrnukappi og glímukapparnir Sigurjón Pétursson og Jóhannes Jósepsson voru í dag teknir inn í Heiðurshöll Íþróttasambands Íslands. Íþróttaþing ÍSÍ fer fram á Hótel Reykjavík Natura um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×