Viðskipti erlent

Danir eiga yfir 10.000 milljarða inni á bankareikningum

Danskur almenningur á samtals um 513 milljarða danskra króna eða vel yfir 10.000 milljarða kr. inni á almennum bankareikningum sínum.

Í frétt um málið á vefsíðu Jyllands-Posten segir að innistæðurnar hafi vaxið um tæpa 11 milljarða danskra kr. í mars s.l. og að þessari innistæður hafi aldrei verið meiri í sögunni.

Fyrrgreind upphæð samsvarar því að hver Dani eigi að jafnaði tæplega 92 þúsund danskar kr. eða rúmlega 1,8 milljónir kr. inni á bankareikningi sínum.

Tore Stramer aðalhagfræðingur Nykredit segir í samtali við Jyllands-Posten að þessi mikli sparnaður Dana skýrist að stórum hluta af óvissu og ótta um framtíð efnahagsmála í Danmörku og hættunni á því að verða atvinnulaus.

Þá nefnir Stramer til sögunnar að Danir hafi fengið útborgaða ýmsa pósta eins og eftirlaunafé sitt frá verkalýðsfélögunum og skattaafslætti. Eins hafi afborganir af húsnæðislánum minnkað töluvert í kjölfar þess að vextir af þeim hafa lækkað verulega á síðustu árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×