Viðskipti erlent

Hagnaður Boeing eykst þrátt fyrir Dreamliner vandann

Hagnaður Boeing flugvélaframleiðandans jókst um 20% á fyrsta ársfjórðungi ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Hagnaðurinn nam 1,1 milljarði dollara í ár miðað við 923 milljónir dollara í fyrra.

Þessi hagnaðaraukning kom sérfræðingum í opna skjöldu því þeir höfðu spáð mun verra uppgjöri á ársfjórðungnum vegna vandamála Boeing með Dreamliner þotur sínar.

Eins og margoft hefur komið fram í fréttum var allur Dreamliner flugflotinn í heiminum kyrrsettur í janúar vegna galla í rafgeymum/rafeindakerfi þessara þotna. Boeing hefur leyst þau vandamál og reiknað er með að Dramliner þoturnar fái flugleyfi að nýju bráðlega.

Í frétt um málið á Reuters segir m.a. að í uppgjöri Boeing fyrir ársfjórðunginn sé ekki sundurgreint hver kostnaður Boeing er mikill vegna fyrrgreindra vandamála. Hinsvegar minnkaði salan hjá Boeing um 2,5% milli ára vegna þeirra.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×